Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Marcus Rashford megi ekki slaka á, vilji hann halda frábæru leikformi sínu við.
Rashford hefur skorað 21 mark í 34 leikjum í öllum keppnum á yfirstandandi tímabili og er þannig aðeins einu marki frá sínu besta tímabili hvað markaskorun varðar, en hann skoraði 22 mörk í 44 leikjum tímabilið 2019/2020.
„Ég veit ekki hvenær þetta hættir en ef þú ert sáttur þá hættir það og þar sem ánægja leiðir til leti verður maður að halda sér við á hverjum degi.
Með því að halda sér við og halda einbeitingu í hverjum leik, þar sem hann kemur með orku og trú, mun hann halda áfram að skora,“ sagði ten Hag á blaðamannafundi í gær.
Rashford skoraði annað marka Man. United í 2:0-sigri á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í gær.