Lee Mason er ekki á lista yfir VAR-dómara í neinum af leikjunum tíu sem fara fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla um næstu helgi.
Mason gerðist sekur um afglöp í starfi sínu þegar honum yfirsást rangstaða í leik Arsenal og Brentford um síðustu helgi.
Leiknum lauk með 1:1-jafntefli. Leandro Trossard kom Arsenal yfir áður en Ivan Toney jafnaði metin.
Mark þess síðarnefnda hefði ekki átt að standa þar sem Christian Nörgaard var rangstæður áður en hann kom boltanum til Toney sem skoraði af stuttu færi.
Mason skoðaði atvikið ekki gaumgæfilega og gleymdi raunar að teikna rangstöðulínur til þess að skera úr um hvort Nörgaard væri fyrir innan.
Hann lagði dómaraflautuna á hilluna eftir síðasta tímabil og sneri sér þá alfarið að VAR-dómgæslu.