Milljarðamæringurinn Elon Musk, sem á stærsta einstaka eigendahlutinn í Twitter, Teslu og SpaceX, er sagður hafa áhuga á því að kaupa enska knattspyrnufélagið Manchester United.
Núverandi eigendur félagsins, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, settu það á sölu í lok síðasta árs og hefur fjöldi fjársterkra aðila áhuga á því.
Þar á meðal eru ríkasti maður Bretlandseyja, Jim Ratcliffe, stærsti einstaki landeigandi á Íslandi, og hópur fjárfesta frá Katar.
Daily Mail greinir frá því í dag að Musk, sem er næstríkasti maður heims, sé einnig áhugasamur um kaup á Man. United og að hann fylgist grannt með ferlinu, en frestur til þess að skrá sig sem formlegur kaupandi rennur senn út.
Musk er metinn á 157 milljarða punda og íhugar nú að leggja fram 4,5 milljarða punda tilboð í félagið.