Michael Skubala mun stýra enska úrvalsdeildarliðinu Leeds United í næstu leikjum, en félaginu hefur gengið illa að ráða eftirmann Jesse Marsch.
Bandaríkjamaðurinn var rekinn í síðustu viku og hefur félaginu ekki tekist að klófesta þá stjóra sem voru á lista sem mögulegir eftirmenn hans. Í tilkynningu félagsins í kvöld er skýrt frá að Skubala muni því halda áfram þjálfun liðsins í einhvern tíma.
Skubala, sem þjálfaði varalið Leeds, hefur stýrt liðinu eftir brottrekstur Marsch. Undir hans stjórn náði það 2:2-jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford, en tapaði síðan fyrir sama andstæðingi á heimavelli.
Næsti leikur Leeds er útileikur gegn Everton í miklum fallslag, en Everton getur sent Leeds niður í fallsæti með sigri og í leiðinni komist upp úr fallsæti.