Manchester City hefur haft einstaklega gott tak á Arsenal í viðureignum liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu undanfarin ár.
Ríkjandi Englandsmeistarar Man. City heimsækja topplið Arsenal í deildinni í kvöld og freista þess að jafna Skytturnar að stigum.
Liðin hafa mæst einu sinni á tímabilinu en var það í ensku bikarkeppninni þar sem Man. City hafði betur, 1:0.
Síðustu fimm tímabil er Man. City með fullt hús stiga í viðureignum liðanna þar sem tíu sigrar í jafnmörgum leikjum hafa litið dagsins ljós.
Það var í apríl árið 2017 sem Arsenal náði síðast í stig gegn Man. City í deildinni þegar liðin gerðu 2:2-jafntefli og síðasti deildarsigur Arsenal kom skömmu fyrir jól árið 2015.
Arsenal freistar þess því að vinna sinn fyrsta deildarsigur gegn Man. City í rétt rúmlega sjö ár.