„Ég er ekki Manchester City“

Erling Haaland fagnar marki sínu í kvöld.
Erling Haaland fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Glyn Kirk

„Það var meistarabragur á okkur í kvöld,“ sagði Erling Haaland, framherji Manchester City, í samtali við BT Sport eftir 3:1-sigur liðsins gegn Arsenal í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld.

„Ég er ekki Manchester City, við erum Manchester City og þeir eru Englandsmeistarar og liðið spilaði þannig í kvöld. Við gerðum nokkrar tilfærslur í hálfleik og allir leikmenn liðsins gáfu allt í þetta í síðari hálfleik. 

Við þurfum að spila svona, eins og við gerðum í síðari hálfleik, í þeim leikjum sem eftir eru og ég er ótrúlega stoltur af öllu liðinu og þakklátur að tilheyra þessum leikmannahópi,“ sagði Haaland.

City er nú jafnt Arsenal að stigum á toppi deildarinnar með 51 stig en Arsenal á leik til góða á City.

„Ég held það geti allir verið sammála um það að Arsenal hefur spilað best allra liða í deildinni á tímabilinu. Það var ekki auðvelt að koma hingað en við gerðum það og sóttum þrjú stig í leiðinni. Við erum aftur með í baráttunni,“ bætti Haaland við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert