Gengur ekki gegn besta liði heims

Mikel Arteta.
Mikel Arteta. AFP/Justin Tallis

„Ég er svekktur því við töpuðum leiknum,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, í samtali við Amazon Prime eftir 1:3-tap liðsins gegn Manchester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld.

„Við þurftum að eiga okkar besta leik til þess að vinna þá og þetta var stál í stál í fyrri hálfleik. Það var ekki mikið sem skildi liðin að í fyrri hálfleik en þeir skora þrjú mörk sem komu öll eftir mistök hjá okkur og það gengur ekki upp þegar að þú ert að spila á móti besta liði heims,“ sagði Areta.

Liðin eru nú jöfn að stigum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 51 stig en Arsenal á leik til góða á City.

„Ég hef trú á mínum leikmönnum og við getum orðið Englandsmeistarar. Við gáfum besta liði heims alvöruleik og þeir unnu því við gerðum of mörg mistök. Við þurfum að fækka mistökunum og ég trúi á leikmennina mína,“ sagði Arteta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert