Reynum að verja titilinn allt til enda

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri ríkjandi Englandsmeistara Manchester City, segir að liðið muni freista þess að verja titil sinn allt til síðustu umferðar í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili.

Man. City heimsækir topplið Arsenal í gífurlega mikilvægum toppslag í deildinni í kvöld.

Á blaðamannafundi í gær var Guardiola spurður hvort um væri að ræða sterkasta Arsenal-lið sem hann hefði mætt.

„Síðan ég kom hingað, alveg tvímælalaust,“ svaraði Guardiola.

Arsenal er sem stendur þremur stigum fyrir ofan Man. City og á auk þess leik til góða. Sigur myndi því koma báðum liðum einstaklega vel.

„Stærsta hvatning okkar er sú að ég vil ekki missa ensku úrvalsdeildina úr höndunum vegna þess að við náum ekki að sýna okkar rétta andlit.

Ef þeir [Arsenal] skáka okkur því þeir eru betri þá er það bara íþróttin. Ég yrði fyrstur til þess að óska þeim til hamingju eins og ég hef alltaf gert. En ekki því við erum ekki til staðar,“ sagði Guardiola.

„Viltu titilinn? Gott og vel, þá þarftu að berjast fyrir því og hrifsa hann til þín. Það er í okkar höndum. Við munum reyna að verja titilinn allt til lokadags, það er það sem ég myndi vilja.

Að berjast allt til enda til þess að reyna að verja titilinn. Ef við náum því ekki munum við sætta okkur við það en við verðum að gera okkar allra besta. Leikmönnum mínum þarf að líða þannig á hverjum degi,“ bætti spænski stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert