Todd Boehly, eigandi enska knattspyrnufélagsins Chelsea, hitti Nasser al Khelaifi, stjórnarformann París SG í Frakklandi, í vikunni þar sem þeir ræddu hugsanleg kaup enska félagsins á brasilíska sóknarmanninum Neymar.
Það er ESPN sem greinir frá þessu en franska félagið reyndi að losna við brasilísku stjórstjörnuna síðasta sumar án árangurs.
Neymar, sem er 31 árs gamall, gekk til liðs við PSG frá Barcelona sumarið 2017 fyrir 200 milljónir punda en hann er dýrasti leikmaður sögunnar.
Hann hefur skorað 117 mörk og lagt upp önnur 76 í 172 leikjum fyrir París SG frá því hann gekk til liðs við félagið en hans stærsta markmið, þegar hann skrifaði undir í París, var að vinna Meistaradeildina sem hefur ekki ennþá tekist.
Neymar er sagður falur fyrir 60 milljónir punda en Boehly hefur verið duglegur að kaupa leikmenn frá því hann keypti Chelsea síðasta sumar.