Ég vil vera stjórinn

Southampton er neðst í ensku úrvalsdeildinni.
Southampton er neðst í ensku úrvalsdeildinni. AFP/Glyn Kirk

Rubén Sellés, bráðabirgðastjóri Southampton, kveðst vilja taka alfarið við stjórnartaumunum hjá liðinu, sem situr á botni ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

„Já, ég vil vera knattspyrnustjórinn,“ sagði Sellés er hann var spurður á blaðamannafundi hvort honum hugnaðist að taka við sem stjóri liðsins.

Sellés er 39 ára Spánverji sem hefur verið aðstoðarþjálfari bæði Ralph Hasenhüttl og Nathan Jones á yfirstandandi tímabili.

Hann hefur ekki starfað sem knattspyrnustjóri áður en verið aðstoðarþjálfari hjá fjölda liða víðs vegar um Evrópu. Sellés telur sig þó reiðubúinn í að taka skrefið upp.

„Ef þú hefðir spurt mig fyrir þremur eða fjórum mánuðum hefði ég sagt já, ég er fær um það eins og hver annar. En það er ekki mín ákvörðun og það er í lagi mín vegna.

Ég geri bara það sem ég get. Ég er með liðið núna, við erum að leggja mjög hart að okkur til þess að sýna okkar bestu hliðar. Þar liggja hæfileikar mínir.

Fólkið sem stjórnar hjá félaginu mun taka ákvörðun en auðvitað yrði ég hæstánægður með að fá að sinna starfinu.“

Southampton heimsækir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á morgun og hefst leikurinn klukkan 15, þar sem Sellés fær tækifæri til þess að stýra liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert