Þurfum að breyta jafnteflum í sigra

Callum Wilson fagnar marki í leik með Newcastle fyrr í …
Callum Wilson fagnar marki í leik með Newcastle fyrr í mánuðinum. AFP/Oli Scarff

Enski knattspyrnumaðurinn Callum Wilson, sóknarmaður Newcastle United, kveðst frekar vilja gera jafntefli en að upplifa þá rússíbanareið sem fylgi því að vinna og tapa leikjum til skiptis.

Newcastle hefur ekki tapað í 17 leikjum í röð í öllum keppnum en hafa þó gert jafntefli í fimm af síðustu sex leikjum sínum.

„Maður er ekkert að spila tennis með tilfinningar sínar. Þegar maður er stöðugt að standa sig vel veit maður að úrslitin munu fylgja með í stað þess að maður sé stöðugt að vinna og svo tapa, og þurfa að koma sterkari til baka.

Ef við höldum áfram að verjast eins vel og við höfum gert vitum við að við munum skora mörk, þannig að við munum byrja að vinna leiki.

Þetta snýst bara um að breyta þessum jafnteflum í sigra en enska úrvalsdeildin er vægðarlaus. Það eykur vellíðan þegar maður er taplaus,“ sagði Wilson í hlaðvarpinu Footballer‘s Football.

Newcastle fær Liverpool í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert