Emiliano Martínez, fyrrverandi markvörður Arsenal, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í uppbótartíma í 2:4-tapi liðs hans Aston Villa fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag.
Ollie Watkins og Philippe Coutinho komu Villa tvívegis yfir í fyrri hálfleik á milli þess sem Bukayo Saka jafnaði metin fyrir Arsenal.
Í síðari hálfleik jafnaði Oleksandr Zinchenko metin fyrir Arsenal og á þriðju mínútu uppbótartíma fór skot Jorginho í þverslána og þaðan í hnakkann á Martínez og í netið.
Gabriel Martinelli klykkti svo út með fjórða markinu á áttundu mínútu uppbótartíma þegar Martínez fór fram í hornspyrnu og skoraði brasilíski vængmaðurinn í galtómt markið.
Mörkin sex ásamt helstu færunum í stórskemmtilegum leik má sjá í spilaranum hér að ofan.