Í gærkvöldi bárust tvö formleg tilboð í enska knattspyrnufélagið Manchester United.
Sjeikinn Jassim bin Hamad Al-Thani, stjórnarformaður eins stærsta banka Katars, hefur formlega staðfest að fjárfestahópur á hans vegum hafi lagt fram tilboð.
BBC Sport greinir frá því að Ineos, fyrirtæki Jims Ratcliffes, ríkasta manns Bretlandseyja og stærsta einstaka landeiganda á Íslandi, hafi sömuleiðis lagt fram formlegt tilboð áður en frestur til þess rann út í gærkvöldi.
Þó hafi Ineos ekki enn staðfest það opinberlega.
Eigendur Manchester United, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, tilkynntu formlega um að félagið, eitt það verðmætasta í heimi, væri til sölu í nóvember síðastliðnum.