Rashford: Nenni ekki að hægja á mér

Marcus Rashford með sitt reglulega fagn.
Marcus Rashford með sitt reglulega fagn. AFP/Oli Scarff

„Þetta var góður dagur,“ sagði einn heitasti leikmaður Evrópu um þessar mundir, Marcus Rashford, eftir sigur Manchester United á Leicester City, 3:0, á Old Trafford í dag. 

Marcus Rashford skoraði fyrstu tvö mörk United-liðsins og er kominn með 14 mörk í deildinni og 24 í heildina á tímabilinu. 

„Það er augljóslega frábær tilfinning að vera að skora mörk og helst að vinna leiki. Í fyrri hálfleik vorum við heldur slappir en í þeim seinni vorum við mun betri.

Við fundum hvor annan og spiluðum vel á milli okkar. Við verðum að gera það frá upphafi leiks, en það er einnig gott að fara marki yfir í hálfleik þegar við erum ekki upp á okkar besta. Það eru hlutir sem við getum bætt en almennt séð var þetta góður dagur.“

Rashford fékk góðan tíma til þess að ákveða hvað hann vildi gera í fyrra marki sínu en hann hefði getað skotið eða sent á samherja sinn, Alejandro Garnacho. Spurður út í hvað hann hugsaði í færinu sagði Rashford: 

„Ég ætlaði reyndar að senda boltann á Garnacho en varnamaðurinn var fyrir. Þannig að ég horfði á markmanninn og svo á Garnacho og mér fannst besta í stöðunni að skjóta og það heppnaðist.“

Nenni ekki að hægja á mér núna

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur hrósað Rashford í hástert en vill að hann haldi áfram að bæta sig og verða enn betri. Rashford segist vera sammála þeim ummælum. 

„Það er erfitt að hætta að bæta sig núna. Það er hellingur eftir af tímabilinu og við erum enn í fjórum keppnum. Það eru rosalegir leikir framundan og ég nenni ekki að hægja á mér,“ sagði Rashford í viðtali við SkySports eftir leik. 

Erik ten Hag hæstánægður með Marcus Rashford eftir leik.
Erik ten Hag hæstánægður með Marcus Rashford eftir leik. AFP/Oli Scarff
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert