United sannfærandi og Rashford óstöðvandi

Marcus Rashford og Bruno Fernandes með Fred í bakgrunni. Allir …
Marcus Rashford og Bruno Fernandes með Fred í bakgrunni. Allir þrír hafa verið í fantaformi undanfarið. AFP/Lindsey Parnaby

Manchester United vann afar sannfærandi sigur á Leicester, 3:0, í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í leikhúsi draumanna, Old Trafford, í dag. 

Leicester var aftur á móti mun betra liðið framan af leik. Sóknarmenn liðsins fengu allnokkur dauðafæri en David de Gea stóð vaktina vel í markinu og varði nokkrum sinnum glæsilega. 

Gegn gangi leiksins kom þó einn heitasti leikmaður Evrópu um þessar mundir, Marcus Rashford, United-liðinu yfir á 25. mínútu. Þá fékk hann utanfótarsnuddu í gegn frá Bruno Fernandes og hafði tíma einn á móti Danny Ward, markverði, nýtti hann vel og setti boltann örugglega í fjærhornið. 

Leicester-liðið náði ekki sama dampi það sem eftir var af fyrri hálfleik og United fór því marki yfir inn í síðari hálfleik, þrátt fyrir nokkuð lélega frammistöðu. 

Gjörbreytt United-lið mætti í seinni hálfleiknum en þá léku leikmenn liðsins á als oddi. Rashfrod tvöfaldaði forystu United á 56. mínútu með annarri góðri afgreiðslu einn í gegn eftir sendingu frá Fred. 

Varamaðurinn Jadon Sancho kom svo United í 3:0 stuttu seinna er hann lék glæsilegt samspil við Bruno Fernandes, fékk boltann á miðjum teignum og stýrði honum í netið. 

United-liðið var mjög agað sem eftir var leiks og skapaði sér þó nokkur færi en fékk fá á sig. Að lokum var afar öruggur sigur United niðurstaðan, 3:0.

Manchester United er í þriðja sæti deildarinnar með 49 stig, fimm færri en topplið Arsenal, sem á þó leik til góða. Leicester er í 14. sæti með 24 stig. 

Man. Utd 3:0 Leicester opna loka
90. mín. Anthony Elanga (Man. Utd) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert