Spánverjinn orðinn stjóri Leeds

Javi Gracia er orðinn stjóri Leeds.
Javi Gracia er orðinn stjóri Leeds. Ljósmynd/Leeds United

Spænski knattspyrnustjórinn Javi Gracia verður tilkynntur sem næsti stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Leeds United innan skamms.

The Athletic greinir frá. Verður hann eftirmaður hins bandaríska Jesse Marsch, sem var rekinn fyrr í mánuðinum. Michael Skubala hefur stýrt Leeds í þremur síðustu leikjum, þar sem liðið hefur unnið einn leik en tapað tveimur.

Liðið heillaði í 2:2-jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford en forráðamenn félagsins voru áhyggjufullir eftir 0:1-tap á útivelli gegn Everton um helgina, þar sem frammistaða Leeds var ekki upp á marga fiska.

Leeds er sem stendur í 19. og næstsíðasta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti. Ekkert lið hefur unnið eins fáa leiki á leiktíðinni, eða fjóra.

Gracia, sem er 52 ára gam­all, kann­ast vel við sig á Englandi en þar stýrði hann liði Wat­ford í úr­vals­deild­inni frá janú­ar 2018 til sept­em­ber 2019. Kom hann liðinu í úrslitaleik enska bikarsins, en tapaði fyrir Manchester City.

Hann fór þaðan til Valencia á Spáni en var sagt upp eft­ir tæp­lega eitt tíma­bil þar. Nú síðast stýrði hann liði Al Sadd í Kat­ar en hætti þar eft­ir að hafa unnið meist­ara­titil­inn 2022 með liðinu.

Uppfært: Félagið hefur staðfest komu Gracia. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka