Spænski knattspyrnustjórinn Javi Gracia verður tilkynntur sem næsti stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Leeds United innan skamms.
The Athletic greinir frá. Verður hann eftirmaður hins bandaríska Jesse Marsch, sem var rekinn fyrr í mánuðinum. Michael Skubala hefur stýrt Leeds í þremur síðustu leikjum, þar sem liðið hefur unnið einn leik en tapað tveimur.
Liðið heillaði í 2:2-jafntefli gegn Manchester United á Old Trafford en forráðamenn félagsins voru áhyggjufullir eftir 0:1-tap á útivelli gegn Everton um helgina, þar sem frammistaða Leeds var ekki upp á marga fiska.
Leeds er sem stendur í 19. og næstsíðasta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá öruggu sæti. Ekkert lið hefur unnið eins fáa leiki á leiktíðinni, eða fjóra.
Gracia, sem er 52 ára gamall, kannast vel við sig á Englandi en þar stýrði hann liði Watford í úrvalsdeildinni frá janúar 2018 til september 2019. Kom hann liðinu í úrslitaleik enska bikarsins, en tapaði fyrir Manchester City.
Hann fór þaðan til Valencia á Spáni en var sagt upp eftir tæplega eitt tímabil þar. Nú síðast stýrði hann liði Al Sadd í Katar en hætti þar eftir að hafa unnið meistaratitilinn 2022 með liðinu.
Uppfært: Félagið hefur staðfest komu Gracia.