Þurfum að eiga okkar besta leik

Erik ten Hag segir Marcus Rashford fyrir verkum í leik …
Erik ten Hag segir Marcus Rashford fyrir verkum í leik gegn Leeds á dögunum. AFP/Oli Scarff

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að lið sitt þurfi að eiga sinn besta leik á tímabilinu annað kvöld til þess að slá Barcelona út úr Evrópudeildinni á Old Trafford annað kvöld.

Liðin gerðu jafntefli, 2:2, í bráðfjörugum fyrri leik á Camp Nou í Barcelona í síðustu viku en sigurliðið kemst í sextán liða úrslit keppninnar. Mörk á útivelli skipta ekki lengur máli þannig að það er ekki ten Hag og hans mönnum neitt sérstaklega í hag að hafa skorað tvívegis á Camp Nou.

„Þegar þú mætir stórliði eins og Barcelona verður þú að sýna allar þínar bestu hliðar, annars áttu ekki möguleika,“ sagði Hollendingurinn á fréttamannafundi í dag en hann er líka á leið með lið sitt í úrslitaleik deildabikarsins gegn Newcastle á sunnudaginn, ásamt því að vera með liðið í toppbaráttu í úrvalsdeildinni og í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar.

„Við eigum ýmsa möguleika. En við verðum alltaf að einbeita okkur að næsta leik, og okkur stendur ekki til boða að vinna Evrópudeildina í þessari viku. Við verðum að mæta til leiks með sama hugarfari í alla leiki,  með það í huga að sýna alltaf bestu hliðina á sjálfum okkur," sagði ten Hag.

Þeir Lisandro Martínez og Marcel Sabitzer koma aftur inn í lið United eftir bann. Antony og Harry Maguire hafa hrist af sér meiðsli og eru sagðir leikfærir en Anthony Martial er enn frá vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert