Conte ekki enn klár í slaginn

Antonio Conte er knattspyrnustjóri Tottenham.
Antonio Conte er knattspyrnustjóri Tottenham. AFP/Marco Bertorello

Antonio Conte verður ekki við stjórnvölinn hjá Tottenham á sunnudaginn þegar lið hans mætir Chelsea í grannaslag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Conte þurfti að fara í aðgerð fyrir þremur vikum þar sem gallblaðran var fjarlægð og hann hefur verið í veikindafríi síðan.

Cristian Stellini stýrir liðinu á meðan og sagði á fréttamannafundi í dag að Conte væri nálægt liðinu og með í öllum ráðagerðum þó hann væri enn heima.

„Við ræðum oft saman og hann fylgist með öllu. Hann getur séð æfingarnar, tekur þátt í öllum umræðum og er með í öllum ákvörðunum sem teknar eru," sagði Stellini.

Tottenham er í fjórða sæti deildarinnar fyrir umferð helgarinnar með 42 stig en Chelsea er í  tíunda sætinu með 31 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert