Leikur með Newcastle næstu árin

Miguel Almirón hefur verið í stóru hlutverki hjá Newcastle í …
Miguel Almirón hefur verið í stóru hlutverki hjá Newcastle í vetur. AFP/Paul Ellis

Paragvæski knattspyrnumaðurinn Miguel Almirón hefur framlengt samning sinn við enska félagið Newcastle til ársins 2026.

Almirón hefur verið í röðum Newcastle í fjögur ár en hefur sprungið út með liðinu á þessu tímabili og er markahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildinni með tíu mörk. Áður hafði hann skorað níu mörk samtals á fyrstu þremur árum sínum hjá félaginu.

Hann er 29 ára gamall, landsliðsmaður Paragvæ, og lék áður með Atlanta United í bandarísku MLS-deildinni. Í október varð hann fyrir valinu sem leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni, og skoraði jafnframt fallegasta mark deildarinnar í október.

Almirón er á leið með Newcastle í úrslitaleik enska deildabikarsins á sunnudaginn en liðin mætast þá á Wembley í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert