Enska úrvalsdeildarfélagið Southampton staðfesti í dag að Ruben Sellés muni sinna starfi knattspyrnustjóra félagsins til bráðabirgða út þetta keppnistímabili.
Nathan Jones varð á dögunum annar stjóri Southampton sem sagt var upp störfum á þessu tímabili. Sellés tók við liðinu til bráðabirgða og verður nú með liðið til vorsins, í það minnsta.
Hann er 39 ára gamall Spánverji sem þjálfaði unglingalið Valencia áður en hann kom til FC Köbenhavn í Danmörku í ársbyrjun 2021 og var ráðinn aðstoðarþjálfari þar.
Sellés yfirgaf Kaupmannahöfn síðasta sumar þegar hann var ráðinn til Southampton í þjálfarahlutverk. Þegar Ralph Hasenhüttl var sagt upp störfum í nóvember s´tyrði hann Southampton í einu leik áður en Nathan Jones tók við liðinu.
Nú hefur Sellés þegar stýrt Southampton í einum leik og þar vann liðið frækinn og óvæntan útisigur gegn rándýru liði Chelsea á Stamford Bridge.
Þrátt fyrir það situr Southampton á botni úrvalsdeildarinnar með 18 stig en gæti komist þaðan á morgun þegar liðið mætir Leeds í uppgjöri tveggja neðstu liðanna.