Ekki er víst að Marcus Rashford geti leikið með Manchester United gegn Newcastle í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu á Wembley á sunnudaginn.
Erik ten Hag knattspyrnustjóri United sagði á fréttamannafundi nú í hádeginu að hann gæti ekki staðfest þátttöku Rashfords í leiknum en sóknarmaðurinn haltraði af velli í leiknum gegn Barcelona í Evrópudeildinni í gærkvöld.
Ten Hag sagði að bíða yrði eftir niðurstöðum úr skoðun á meiðslum Rashfords í dag áður en ákvörðun yrði tekin með hann.
Rashford hefur verið sjóðandi heitur með Manchester United undanfarnar vikur og mánuði en hann er búinn að skora 24 mörk fyrir liðið í 37 mótsleikjum á þessu tímabili.
Ten Hag staðfesti hins vegar að Anthony Martial yrði ekki með á sunnudaginn en hann hefur verið frá keppni í rúmar þrjár vikur vegna meiðsla í mjöðm.