Fyrsti titill Manchester United í sex ár

Manchester United er deildabikarmeistari karla í fótbolta eftir sigur á Newcastle, 2:0, á Wembley í Lundúnum á Englandi í dag. 

Newcastle-liðið var sterkara framan af leik og Kieran Trippier og Allan Saint-Maximin ógnuðu vörn United oft. Manchester-liðinu gekk illa að byggja upp sínar sóknir en komst hægt og rólega inn í leikinn.

Það var svo Casemiro sem kom Manchester United yfir á 34 mínútu. Þá fékk Manchester-liðið aukaspyrnu á hættulegum stað sem Luke Shaw tók og stýrði henni beint á kollinn á Casemiro sem stangaði knöttinn í netið, 1:0, nokkuð gegn gangi leiksins.

Gleði United-manna jókst aðeins því fimm mínútum síðar tvöfaldaði Marcus Rashford forystu þeirra. Þá þræddi Wout Weghorst Rashford í gegn sem tók á móti boltanum, setti hann í Sven Botman og yfir Loris Karius markmann sem hafði núþegar skutlað sér. 2:0 og Manchester-liðið í draumalandi.

Seinna kom í ljós að skot Rashford hefði ekki farið á markið án viðkomu í Botman og því var markið skráð sem sjálfsmark Hollendingsins.

Eftir sjálfsmarkið náði United mestmegnis tökum á leiknum og Newcastle skapaði sér fáar góðar sóknaraðgerðir. Wout Weghorst fékk besta færið sem eftir lifði fyrri hálfleiksins en Karius sá við honum. Hálfleikstölur 2:0, Manchester United í vil. 

Newcastle náði lítið sem ekkert að skapa sér færi til að komast aftur inn í leikinn fyrri hluta síðari hálfleiksins en í kringum 70. mínútu fór liðið aðeins að kveikja á sér. 

Þá fékk Joelinton gott færi sem Lisandro Martínez bjargaði glæsilega. Sóknaraðgerðir Newcastle voru betri eftir það en Norðanmenn náðu ekki að brjóta Manchester-liðið nóg sem varðist mjög vel. 

United-liðið var allt í allt afar fagmannlegt í seinni hálfleik og vann leikinn sem og bikarinn. 

Þetta er sjötti deildabikartitill Manchester United og fyrsti titill félagsins á tímabilinu, sem og síðustu rúm sex ár. Flottir hlutir framundan hjá stórveldinu. 

Man. Utd 2:0 Newcastle opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við. United-liðið spilað mjög fagmannlega í seinni hálfleik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert