Haaland þegar búinn að slá markametið

Erling Haaland fagnar eftir að hafa skorað fyrir Manchester City …
Erling Haaland fagnar eftir að hafa skorað fyrir Manchester City gegn Bournemouth. AFP/Adrian Dennis

Norðmaðurinn Erling Braut Haaland sló í gær markamet hjá leikmanni Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar hann skoraði eitt marka liðsins í útisigri á Bournemouth, 4:1.

Haaland hefur nú skorað 27 mörk í aðeins 24 leikjum með City á tímabilinu en félagsmetið á heilu tímabili frá stofnun úrvalsdeildarinnar árið 1992 átti Sergio Agüero. Han nskoraði 26 mörk í deildinni tímabilið 2014-15.

Haaland gæti spilað fjórtán leiki í viðbót og á raunhæfa á að slá félagsmetið frá upphafi. Það met á Tommy Johnson sem skoraði 38 mörk fyrir City í efstu deild tímabilið 1928-29.

Næsthæstur er Francis Lee sem skoraði 33 mörk fyrir City í deildinni tímabilið 1971-72.

Haaland er langmarkahæstur í deildinni á þessu keppnistímabili en næstur á eftir honum er Harry Kane sem hefur skorað 17 mörk fyrir Tottenham. Síðan koma Marcus Rashford hjá Manchester United og Ivan Toney hjá Brentford sem hafa skorað 14 mörk hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert