Sparspekingurinn Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, hrósaði núverandi stjóra félagsins, Erik ten Hag, í hástert eftir að félagið vann ensku bikarkeppni karla í fótbolta með sigri á Newcastle, 2:0, á Wembley í dag.
Þetta er fyrsti bikar Manchester-liðsins í rúm sex ár og fyrsti bikarinn sem að ten Hag hefði getað unnið. Neville segist vera hæstánægður með störf Hollendingsins hingað til og vill meina að hann hafi búið til alvöru sigurlið.
„Þetta snýst um einn mann sem hefur breytt liði úr vælukjóum í sigurvegara. Þvílíkt starf sem Erik ten Hag hefur unnið. Það voru leikmenn þarna á vellinum sem ættu ekki að hafa leikið annan leik fyrir Manchester United en þeir eru að spila á háu stigi.
Það er andi og barátta í liðinu. Það eru raunverulegar líkur á að liðið vinni fleiri titla umfram þennan. Hann tekur góðar ákvarðanir í leikjum en varamennirnir voru mikilvægir til að tryggja sigurinn í dag. Það hefur verið frábært að fylgjast með liðinu undanfarna mánuði.
Þetta lið var til skammar
Gary Neville segir viðsnúningurinn á liðinu magnaður á þessum sex mánuðum. Áður voru þetta leikmenn sem voru félaginu til skammar en nú orðnir sigurvegarar.
„Í lok síðasta tímabils voru sumir af þessum leikmönnum hluti af liði sem var mér og öðrum aðdáendum United til skammar. Það var hræðilegt að horfa á. Viðsnúningurinn á liðinu er ótrúlegur, það er magnað hvað ten Hag hefur gert.
Þessi hópur verður hættulegur með verðlaun um hálsinn. Í þokkabót mun ten Hag aðeins bæta liðið á næstu 12 til 18 mánuðum. Liðið er ekki nálægt Arsenal og Manchester City eins og staðan er núna, það er ljóst. En hvar þeir eru núna er eitthvað sem ég hafði aldrei trúað fyrir sex mánuðum,“ sagði Neville að lokum í samtali við Skysports.