Stöðugt hitnar undir Graham Potter, knattspyrnustjóra Chelsea, eftir því sem biðin eftir sigri lengist hjá liðinu, og nú hafa breskir fjölmiðlar birt fimm manna lista sem sagður er óskalisti félagsins varðandi eftirmann hans í starfi.
Fimmmenningarnir eru sagðir vera Zinedine Zidane, Mauricio Pochettino, Luis Enrique, Diego Simeone og José Mourinho, en sá síðastnefndi er sagður tilbúinn til að koma til félagsins í þriðja skipti á ferlinum.
Potter tók við Chelsea í september og hefur því verið tæplega hálft ár í starfi. Þrátt fyrir mikil innkaup hjá félaginu hefur ekkert gengið hjá liðinu sem er í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tapaði í gær, 2:0, fyrir Tottenham. Það var sjötti leikur liðsins í röð án sigurs og frá áramótum hefur Chelsea aðeins unnið einn leik af ellefu í öllum mótum.