Ruud Gullit, einn frægasti knattspyrnumaðurinn í sögu Hollendinga, hefur gagnrýnt landa sinn Virgil van Dijk fyrir frammistöðu hans með Liverpool í vetur.
Eftir skell Liverpool gegn Real Madrid, 2:5, í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sagði Gullit að hollenski landsliðsfyrirliðinn hefði litið út eins og skautahlaupari í leiknum á Anfield.
„Van Dijk setur hendurnar fyrir aftan bak eins og skautahlauparar gera, og hann beygir hnén eins og skautahlaupari. Hann hallar sér áfram, hann fer eiginlega niður og er með hendurnar fyrir aftan bak til þess að forðast að fá boltann í þær þegar framherjinn skýtur. Það virkar of einfalt á mig og lítur klaufalega út,“ sagði Gullit en Hollendingar eiga einmitt bestu skautahlaupara heims.
Van Dijk hefur verið spurður um þessi ummæli landa síns og sagði við Daily Express: „Það er ekkert við þessu að segja. Ég geri miklar kröfur til sjálfs mín, og reyni að leika samkvæmt þeim. Það var erfitt að snúa aftur eftir alvarleg meiðsli, og síðan að detta út í sex vikur. Ég hef lagt hart að mér og er stoltur af því að hafa náð að spila þrjá heila leiki í kjölfarið."
Van Dijk er 31 árs og hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í vörn Liverpool í vetur. Hann er nýkomin aftur eftir meiðsli en Hollendingurinn tognaði aftan í læri snemma í janúar og var frá keppni í sex vikur.
Árið 2019 varð hann annar í kjöri France Football á besta knattspyrnumanni heims, Ballon d'Or, í kjölfarið á sigri Liverpool í Meistaradeild Evrópu, og vorið 2020 var hann í lykilhlutverki þegar Liverpool varð enskur meistari í fyrsta sinn í 30 ár.