Úrskurðað hefur verið að Marcus Rashford hafi skorað seinna mark Manchester United gegn Newcastle í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu í gær.
Rashford skaut í Sven Botman, hollenska varnarmanninn hjá Newcastle, og af honum fór boltinn í markið.
Markið var skráð sem sjálfsmark í gær, á þeim forsendum að boltinn hefði stefnt fram hjá marki Newcastle áður en hann snerti Botman, en eftir ítarlega skoðun hefur því verið breytt og metið sem svo að Rashford hefði hitt markið ef boltinn hefði ekki farið í andstæðinginn.
Rashford hefur þar með skorað 25 mörk fyrir Manchester United á tímabilinu.
Manchester United vann leikinn 2:0 og krækti þar með í sinn fyrsta titil í sex ár.