Yfirmaður VAR í úrvalsdeildinni lætur af störfum

Neil Swarbrick gefur Gareth McAuley rautt spjald í leik West …
Neil Swarbrick gefur Gareth McAuley rautt spjald í leik West Bromwich Albion vorið 2015. AFP

Neil Swarbrick, yfirmaður VAR-dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, mun láta af störfum þegar yfirstandandi tímabili lýkur.

Swarbrick, sem er 57 ára, lagði flautuna á hilluna árið 2018 en tók þá við starfi yfirmanns í VAR og hefur leitt innleiðingu tækninnar í úrvalsdeildinni.

Ástæðuna fyrir því að hann hefur nú ákveðið að setjast í helgan stein má ekki rekja til neinna tiltekinna mistaka líkt og í tilviki Lee Masons, sem sagði af sér sem VAR-dómari eftir afglöp í leik Arsenal og Brentford í deildinni í síðasta mánuði.

Hins vegar er Howard Webb tekinn við sem yfirmaður dómaramála hjá samtökum atvinnudómara á Englandi og hyggst róa öllum árum að því að bæta dómgæslu almennt á Englandi.

VAR-dómgæsla á Englandi hefur sætt tíðri gagnrýni allt frá því að tæknin var innleidd í úrvalsdeildinni tímabilið 2019/2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert