Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, segir að liðið hafi átt afar góðu að venjast undanfarin tímabil þar sem það barðist um flesta titla og því hafi það reynst því þungbært að upplifa sveiflukennt yfirstandandi tímabil.
Sem stendur er Liverpool í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, níu stigum á eftir Tottenham Hotspur í fjórða sæti, síðasta Meistaradeildarsætinu.
„Ég vil komast í Meistaradeildina því ég vil spila í Meistaradeildinni. Síðustu fjögur eða fimm árin höfum við haft það gott. Við höfum verið að vinna alla titla sem hafa verið í boði.
Við áttum tímabil í fyrra þar sem við vorum að keppa um alla titla fram á síðasta dag þannig að það er áfall fyrir alla að yfirstandandi tímabil hafi verið jafn sveiflukennt og raun hefur verið,“ sagði van Dijk í samtali við Goal.com.
Liverpool er úr leik í ensku bikarkeppninni og útlitið er mjög dökkt í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið steinlá 2:5 á heimavelli í fyrri leik liðsins gegn Real Madríd í 16-liða úrslitum keppninnar á þriðjudaginn var.