Brasilíski knattspyrnumaðurinn Thiago Silva leikur ekki með enska liðinu Chelsea á næstunni eftir að hafa meiðst í leik liðsins gegn Tottenham í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.
Chelsea staðfesti í dag að liðbönd í hné hefðu skaddast. Ekki var gefin upp tímalengd í tengslum við væntanlega endurkomu en viðbúið er að hann leiki ekki með liðinu næstu vikurnar.
Silva er orðinn 38 ára gamall og fyrr í þessum mánuði framlengdi hann samning sinn við félagið til sumarsins 2024. Hann leikur enn með landsliði Brasilíu og á þar 113 landsleiki að baki en Silva kom til Chelsea frá París SG fyrir þremur árum.