Enska knattspyrnufélagið West Ham varð fyrir áfalli um síðustu helgi þegar pólski markvörðurinn Lukasz Fabianski slasaðist í leik liðsins gegn Nottingham Forest.
West Ham vann þar góðan sigur, 4:0, en Fabianski fékk þungt högg á andlitið og nú er ljóst að hann er kinnbeinsbrotinn. Þar með spilar hann ekki gegn Manchester United í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar annað kvöld og ekki næstu vikurnar.
David Moyes knattspyrnustjóri West Ham staðfesti þetta á fréttamannafundi í dag og sagði ekki ljóst hvort brotið myndi gróa af sjálfu sér eða hvort Pólverjinn þyrfti á aðgerð að halda. „Þetta er að sjálfsögðu mikill missir fyrir okkur og mikið áfall fyrir hann á þessu stigi ferils síns," sagði Moyes.
Fabianski er 37 ára gamall og samningur hans við félagið rennur út í sumar. Hann hefur leikið með West Ham í fimm ár og hefur spilað 339 úrvalsdeildarleiki fyrir West Ham, Swansea og Arsenal en hann hefur leikið samfleytt í deildinni frá árinu 2007.