Ivan Toney, framherji enska úrvalsdeildarliðsins Brentford, á yfir höfði sér langt bann frá fótbolta fyrir brot á veðmálareglum.
Enska knattspyrnusambandið kærði Toney undir lok síðasta árs fyrir að brjóta veðmálareglur í 262 skipti.
Samkvæmt Daily Mail hefur Toney játað sök og mun hann vera úrskurðaður í margra mánaða bann sem hefst á yfirstandandi leiktíð.
Toney hefur verið einn besti framherji deildarinnar á leiktíðinni og skorað 14 mörk í 21 með Brentford. Liðið hefur leikið vel á tímabilinu og er í níunda sæti með 35 stig eftir 23 leiki.