Enski knattspyrnumaðurinn Ivan Toney á yfir höfði sér að minnsta kosti sex mánaða bann frá knattspyrnuiðkun, vegna brota á veðmálareglum enska knattspyrnusambandsins.
Enska sambandið kærði Toney undir lok síðasta árs fyrir að brjóta veðmálareglur í 262 skipti.
Sky Sports greinir frá í dag að Toney, sem hefur játað sök, eigi yfir höfði sér að minnsta kosti sex mánaða bann vegna brotanna. Vill hann að bannið taki gildi sem fyrst, svo það hafi minni áhrif á næsta tímabil.
Toney hefur verið einn besti framherji deildarinnar á leiktíðinni og skorað 14 mörk í 21 með Brentford. Liðið hefur leikið vel á tímabilinu og er í níunda sæti með 35 stig eftir 23 leiki.