Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir franska miðvörðinn Ibrahima Konaté vera kláran í slaginn eftir meiðsli og að Darwin Núnez hafi getað æft með eðlilegum hætti eftir að hafa misst af síðasta leik liðsins.
Konaté hefur verið mikið meiddur á tímabilinu og aðeins leikið fimm deildarleiki en er nú búinn að jafna sig af meiðslum aftan í læri.
Núnez meiddist á öxl um þarsíðustu helgi eftir að hafa skorað í sigurleik gegn Newcastle United, lék næsta leik í Meistaradeildinni gegn Real Madríd og skoraði í stórtapi en fann svo fyrir eymslum á ný og gat því ekki leikið með Liverpool í markalausu jafntefli gegn Crystal Palace á laugardag.
„Ibou æfði með eðlilegum hætti í gær [í fyrradag] og Darwin sömuleiðis þannig að nú þurfum við bara að bíða og sjá.
Ibou hefur ekki fundið fyrir neinu eftir að hafa jafnað sig á meiðslunum, við vildum bara gefa honum meiri æfingatíma áður en við kæmum honum aftur í liðið og hann ætti að vera í lagi.
Við þurfum að sjá til með Darwin. Þetta er öxlin, þetta leit prýðilega út í gær en ég veit það ekki fyllilega fyrr en sjúkrateymið okkar segir mér hvernig hann brást við æfingunni í gær [í fyrradag],“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.
Hann sagði um leið að Joe Gomez væri frá vegna vöðvameiðsla og að eitthvað væri enn í endurkomu Luis Díaz og Thiago.
Liverpool fær Wolverhampton Wanderers í heimsókn í frestuðum leik í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.