Magnaðir Arsenal-menn með fimm stiga forskot

Bukayo Saka fagnar marki sínu að hætti Thierry Henry í …
Bukayo Saka fagnar marki sínu að hætti Thierry Henry í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Arsenal vann stórsigur á Everton, 4:0, í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta á Emirates-vellinum í Norður-Lundúnum í kvöld.

Mestallur fyrri hálfleikurinn var toppliðinu erfiður. Everton-menn vörðust vel, lokuðu á allar sóknaraðgerðir Arsenal og fengu sín upphlaup en Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, sá við þeim. 

Það var svo á 40. mínútu sem til tíðinda tók. Þá sendi Oleksandr Zinchenko laglega sendingu á Bukayo Saka inn í teig sem hafði tíma til að snúa, sem hann gerði og negldi svo boltanum í þaknetið nær með hægri fæti. Þetta var stórgott mark og Arsenal-menn voru þar með komnir yfir úr sínu fyrsta færi. 

Fimm mínútum síðar tvöfaldaði Gabriel Martinelli forystu Arsenal-manna. Þá vann Saka boltann af Idrissa Gueye og í leiðinni kom hann honum á Martinelli sem var einn gegn Jordan Pickford, markverði Everton, og setti boltann á nærhornið með glæsibrag. 

Markið var svo dæmt af vegna rangstöðu en í VAR-sjánni kom í ljós að Martinelli var samsíða Saka og markið dæmt gott og gilt, 2:0, sem voru hálfleikstölur. 

Seinni hálfleikurinn var sýning af hálfu Arsenal-manna. Þeir héldu boltanum glæsilega sín á milli og gáfu Everton-mönnum ekkert eftir. 

Þrátt fyrir það kom þriðja markið ekki fyrr en á 71. mínútu en þá kom Granit Xhaka boltanum á Leandro Trossard sem keyrði á vörn Everton og sendi boltann svo þvert fyrir á fyrirliðann Martin Ödegaard sem setti boltann í netið af stuttu færi, 3:0, og Arsenal búið að ganga frá leiknum. 

Níu mínútum síðar skoraði Martinelli sitt annað mark og fjórða mark heimamanna. Þá fékk Eddie Nketiah sendingu frá Zinchenko og sendi boltann þvert fyrir á Martinelli sem potaði honum á milli fóta Pickford og kom Arsenal í 4:0.

Færin voru fleiri, en mörkin ekki hjá Arsenal-liðinu sem er nú með fimm stiga forskot á toppi deildarinnar, 60 stig. 

Næsti leikur Arsenal-liðsins er á laugardaginn kemur gegn Bournemouth á heimavelli. Everton fer í sex stiga útileik gegn Nottingham Forest á sunnudaginn.

Gabriel Martinelli fagnar öðru marki sínu í kvöld.
Gabriel Martinelli fagnar öðru marki sínu í kvöld. AFP/Glyn Kirk
Arsenal 4:0 Everton opna loka
90. mín. Arsenal fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert