Franski vinstri bakvörðurinn Layvin Kurzawa, leikmaður enska knattspyrnuliðsins Fulham, varð fyrir alvarlegum hnémeiðslum á æfingu með liðinu og hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir liðið.
Kurzawa, sem er að láni frá franska stórliðinu París SG, hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár þar sem hann hefur aðeins spilað sex leiki í öllum keppnum fyrir Fulham á yfirstandandi tímabili og lék aðeins einn leik fyrir PSG á því síðasta.
Á æfingu í vikunni lenti Kurzawa í harkalegu samstuði og greinir Daily Mail frá því að hann hafi við það slitið liðbönd í hné.
Kurzawa mun því ekki koma neitt frekar við sögu það sem eftir er af tímabilinu og má reikna með að hann verði frá í sex til níu mánuði.
Samningur hans við PSG rennur út sumarið 2024.