Sér ekki eftir ákvörðuninni

Harry Kane skallar fram hjá marki Sheffield United í gærkvöldi.
Harry Kane skallar fram hjá marki Sheffield United í gærkvöldi. AFP/Oli Scarff

Cristian Stellini, aðstoðarþjálfari Tottenham Hotspur, kveðst ekki sjá eftir því að hafa látið fyrirliðann Harry Kane byrja á varamannabekknum í 0:1-tapi fyrir B-deildar liði Sheffield United í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöldi.

Kane er helsti markaskorari og langstærsta stjarna Tottenham.

„Það er engin eftirsjá. Við þurfum að horfa á meðalþátttöku þar sem við eigum fjölda leikja fyrir höndum.

Harry Kane spilaði síðustu sex leiki í byrjunarliði, einu sinni með hita og einu sinni er hann var að glíma við smávægileg meiðsli. Við verðum að hugsa vel um besta leikmann okkar,“ sagði Stellini á blaðamannafundi eftir leikinn.

Hann stýrir Tottenham í fjarveru Antonio Conte, sem er að jafna sig eftir skurðaðgerð þar sem gallblaðra hans var fjarlægð.

Kane kom inn á sem varamaður á 65. mínútu í gærkvöldi en tókst ekki að skora.

„Þetta snýst ekki um Harry því við lékum með Richarlison, Lucas Moura og Sonny [Son Heung-Min] frammi. Ég tel þá nægilega góða til þess að spila í þessari keppni og gegn svona liði.

Ég tel okkur hafa klúðrað stóru tækifæri og við verðum að biðja stuðningsmenn okkar afsökunar. Það voru 5.000 manns sem komu hingað til þess að horfa á þessa frammistöðu okkar og við biðjumst afsökunar,“ bætti Stellini við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert