Foden og Silva sáu um Newcastle

Phil Foden fagnar glæsilegu marki sínu.
Phil Foden fagnar glæsilegu marki sínu. AFP/Paul Ellis

Manchester City vann góðan sigur á Newcastle United, 2:0, þegar liðin áttust við á Emirates-vellinum í Manchester í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Phil Foden kom City á bragðið eftir stundarfjórðungs leik þegar hann skoraði með hægri fótar skoti í nærhornið eftir magnað einstaklingsframtak.

Skömmu síðar fékk Sean Longstaff dauðafæri til þess að jafna metin fyrir Newcastle en Nathan Aké gerði frábærlega í að renna sér fyrir skotið.

Á 34. mínútu komst Erling Haaland nálægt því að tvöfalda forskotið en skalli hans af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Kevin De Bruyne fór framhjá nærstönginni.

Stuttu seinna skallaði Kieran Trippier boltann þvert fyrir á Callum Wilson sem var einn við markteiginn en hitti boltann afleitlega og rúllaði hann til hliðar áður en Rodri hreinsaði frá.

Staðan því 1:0 í hálfleik.

Eftir rúmlega klukkutíma leik gerði Newcastle þrefalda skiptingu og hófu varamennirnir strax að láta að sér kveða.

Einn þeirra, Joe Willock, átti strax frábæra fyrirgjöf á Joelinton sem náði á einhvern illskiljanlegan hátt ekki skoti á markið í grennd við vítateiginn.

Mínútu síðar kom annar þeirra, Alexander Isak, sér í góða stöðu í vítateignum, tók skotið en Rúben Dias komst fyrir það. Isak náði boltanum aftur og reyndi að pota honum framhjá Ederson í mark Man. City en hann varði vel með fótunum.

Strax eftir það, á 65. mínútu, gerði Man. City skiptingu þar sem Bernardo Silva kom inn á fyrir De Bruyne.

Hún átti eftir að koma sér vel þar sem Portúgalinn innsiglaði sigur heimamanna með öðru markinu aðeins tveimur mínútum eftir að hann kom inn á.

Haaland renndi þá boltanum til hliðar á Silva, sem náði góðu skoti rétt innan vítateig og hafnaði það niðri í horninu.

Eftir annað markið róaðist leikurinn töluvert en fékk Foden síðasta færi leiksins fjórum mínútum fyrir leikslok en Nick Pope varði skot hans af stuttu færi vel.

Eftir sigurinn er Man. City áfram í öðru sæti deildarinnar, nú með 58 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal sem á leik til góða á heimavelli gegn Bournemouth klukkan 15 í dag.

Newcastle heldur kyrru fyrir í fimmta sæti með 41 stig.

Man. City 2:0 Newcastle opna loka
90. mín. Man. City fær hornspyrnu Tekin stutt, önnur hornspyrna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert