Klopp og ten Hag biðla til stuðningsmanna

Úr fyrri leik Liverpool og Manchester United á tímabilinu.
Úr fyrri leik Liverpool og Manchester United á tímabilinu. AFP/Paul Ellis

Jürgen Klopp og Erik ten Hag, knattspyrnustjórar erkifjendanna Liverpool og Manchester United, hafa í sameiningu kallað eftir því að stuðningsmenn félaganna syngi ekki um harmleiki sem tengjast þeim, þ.e. München-flugslysinu og Heysel og Hillsborough-slysunum.

Liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í Liverpool á morgun.

„Ein af helstu ástæðunum fyrir því að rígurinn milli Liverpool og Manchester United er svo sérstakur er að hann er svo ákafur og enginn ætti að vilja breyta því.

En á sama tíma getur rígurinn orðið of ákafur og þegar svo er getur hann farið með fólk á staði sem gagnast engum, og þessu þurfum við ekki á að halda.

Við viljum læti, við viljum að fólk skiptist í fylkingar og við viljum rafmagnað andrúmsloft. Við viljum ekkert sem fer út fyrir þetta og það á sérstaklega við um söngva sem eiga ekkert erindi í fótbolta.

Ef við getum haldið ástríðunni og hent eitrinu út væri það svo miklu betra fyrir alla,“ sagði Klopp.

Ten Hag tók í sama streng:

„Rígurinn á milli Manchester United og Liverpool er einn sá stærsti í fótboltaheiminum. Við elskum öll ástríðuna sem stuðningsmenn sýna þegar liðin okkar mætast en það eru strik sem ætti aldrei að fara yfir.

Það er óásættanlegt að nota dauðsföll tengd hvaða harmleik sem er til þess að vinna sér inn einhver stig og það er tímabært að það hætti.

Þeir sem bera ábyrgð á slíku sverta ekki aðeins orðspor félaganna heldur einnig og ekki síður sitt eigið orðspor, stuðningsmannanna og okkar frábæru borga.

Fyrir mína hönd, leikmanna okkar og starfsfólks,  biðla ég til stuðningsmanna okkar að styðja lið okkar á sunnudag og vera félagi okkar til sóma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert