Chelsea vann afar langþráðan og kærkominn sigur á Leeds United þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Á sama tíma vann Wolverhampton Wanderers góðan sigur á Tottenham Hotspur.
Wesley Fofana reyndist hetja Chelsea þegar hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Leeds snemma í síðari hálfleik.
Hann skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu Bens Chilwells.
Var þetta fyrsti sigur Chelsea í deildinni frá 15. janúar.
Úlfarnir fengu Tottenham í heimsókn og unnu einnig sterkan 1:0-sigur.
Adama Traoré skoraði sigurmark heimamann átta mínútum fyrir leikslok.
Aston Villa vann sömuleiðis Crystal Palace með minnsta mun, 1:0.
Wilfried Zaha virtist vera að koma gestunum í Crystal Palace í forystu eftir aðeins fimm mínútna leik. VAR skarst hins vegar í leikinn og fékk markið ekki að standa eftir að rangstaða var dæmd.
Eftir tæplega hálftíma leik kom annar Palace-maður, Joachim Andersen, boltanum í netið en illu heilli fyrir hann í sitt eigið net. Reyndist það sigurmarkið.
Brighton vann öruggan 4:0-sigur á West Ham United.
Argentínski heimsmeistarinn Alexis Mac Allister kom Brighton í forystu á 18. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Jarrod Bowen hrinti Kaoru Mitoma innan vítateigs.
Staðan orðin 1:0 og þannig stóðu leikar í leikhléi.
Í síðari hálfleik keyrðu heimamenn yfir Hamrana og bættu við þremur mörkum.
Þau skoruðu Joel Veltman, Kaoru Mitoma og Danny Welbeck.