Lygilegur endurkomusigur Arsenal

Reiss Nelson í þann mund að skora hádramatískt sigurmark Arsenal …
Reiss Nelson í þann mund að skora hádramatískt sigurmark Arsenal í dag. AFP/Glyn Kirk

Arsenal vann magnaðan endurkomusigur á nýliðum Bournemouth, 3:2, þegar liðin áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Reiss Nelson reyndist hetja liðsins þegar hann skoraði sigurmarkið seint í uppbótartíma.

Leikurinn hófst með svakalegum látum þar sem Philip Billing var búinn að koma gestunum í Bournemouth í forystu eftir einungis níu sekúndna leik.

Bournemouth hóf leikinn og kom boltanum strax á Dango Ouatta á hægri kantinum, hann lék aðeins með boltann í átt að vítateignum, gaf fyrir, boltinn fór aðeins í Gabriel og rúllaði þaðan beint fyrir fætur Billings sem skoraði af stuttu færi.

Um er að ræða næst fljótasta mark sem hefur verið skorað í rúmlega 30 ára sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það fljótasta skoraði Shane Long fyrir Southampton gegn Watford fyrir tæpum fjórum árum síðan. Mark Longs kom eftir einungis 7,69 sekúndna leik.

Strax í kjölfar marks Billings fékk Arsenal tvöfalt dauðafæri þegar Martin Ödegaard átti stórhættulegt skot við vítateigslínuna, Neto í marki Bournemouth varði með naumindum, Bukayo Saka náði frákastinu og skaut af markteig en í öxlina á Neto.

Stuttu síðar, á fimmtu mínútu, fékk Ödegaard aftur gott skotfæri við vítateigslínuna en aftur varði Neto.

Eftir þessa kröftugu byrjun róaðist leikurinn um stund en á 20. mínútu fékk Bournemouth annað dauðafæri til þess að tvöfalda forystuna.

Dominic Solanke sendi þá Billing í gegn og leikmenn Bournemouth voru skyndilega þrír gegn einum varnarmanni Arsenal.

Billing renndi boltanum þvert fyrir á Ouattara sem tók viðstöðulaust skot en Aaron Ramsdale í marki Arsenal varði glæsilega.

Á 34. mínútu vildi Arsenal fá vítaspyrnu þegar boltinn datt ofan á handlegg Chris Mepham innan vítateigs. VAR skoðaði atvikið en ákvað að aðhafast ekkert frekar.

Arsenal tókst ekki að skapa sér opin færi það sem eftir var af hálfleiknum og færði sér ekki fjölda hornspyrna í nyt.

Staðan var því 1:0, Bournemouth í vil, þegar flautað var til leikhlés.

Snemma í síðari hálfleik átti Ödegaard eina af fjölmörgum tilraunum sínum í leiknum en enn á ný sá Neto við honum.

Skömmu síðar brunaði Gabriel Martinelli fram í skyndisókn en ákvað að skjóta sjálfur úr nokkuð þröngu færi og skot hans framhjá.

Í næstu sókn fékk Bournemouth hornspyrnu. Hana tók Joe Rothwell frá vinstri, fann þar Marcos Senesi sem kom á fleygiferð á nærstöngina og skallaði boltann af krafti í netið, staðan óvænt orðin 2:0 eftir 57 mínútna leik.

Ekki leið þó á löngu þar til Thomas Partey minnkaði muninn fyrir Arsenal. Það gerði hann á 62. mínútu með skoti af stuttu færi eftir skallasendingu Emile Smith Rowe í kjölfar þess að Neto hafði kýlt hornspyrnu Ödegaards frá.

Á 70. mínútu jöfnuðu heimamenn svo metin.

Reiss Nelson, sem hafði komið inn á sem varamaður mínútu áður, gaf þá fasta sendingu fyrir þar sem annar varamaðiur, Ben White, náði góðu skoti á lofti úr þröngu færi, Neto náði að verja boltann út en hann var hins vegar kominn inn fyrir marklínuna.

Um fyrsta mark Whites fyrir Arsenal var að ræða í hans 69. leik í öllum keppnum.

Staðan orðin 2:2 og enn nægur tími fyrir Arsenal að knýja fram sigurmark.

Jack Stephens var nálægt því að koma boltanum í eigið net á 73. mínútu þegar fyrirgjöf Saka fór af lærinu á honum og í stöngina.

Arsenal hélt áfram að þjarma að Bournemouth en þegar öll nótt virtist úti skoraði Nelson með mögnuðu skoti á sjöundu mínútu uppbótartíma, sem söng uppi í horninu í kjölfar þess að hornspyrna Ödegaards hafði verið skölluð frá.

Endurkoman var fullkomnuð og ótrúlegur sigur Arsenal niðurstaðan.

Arsenal er því áfram á toppi deildarinnar með fimm stiga forskot á Manchester City í öðru sætinu.

Bournemouth er áfram í 19. og næstneðsta sæti með 21 stig.

Philip Billing, lengst til hægri, fagnar eftir að hafa komið …
Philip Billing, lengst til hægri, fagnar eftir að hafa komið Bournemouth yfir eftir einungis 11 sekúndna leik. AFP/Glyn Kirk
Arsenal 3:2 Bournemouth opna loka
90. mín. Arsenal fær hornspyrnu Hornspyrna númer 16! Hún er tekin stutt og sóknin rennur að lokum út í sandinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert