„Þetta var líklega háværasta og tilfinningaríkasta stund sem við höfum átt saman,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, eftir lygilegan endurkomusigur gegn Bournemouth, 3:2, í Lundúnum í gær.
Arsenal fékk mark á sig eftir aðeins níu sekúndna leik og lenti 0:2 undir á 57. mínútu. Þá hófst endurkoman þar sem Arsenal skoraði tvö mörk með stuttu millibili og síðan sigurmark Reiss Nelson á 97. mínútu leiksins og sigurinn var í höfn.
Með sigrinum kom Arsenal sér aftur í fimm stiga forskot á Manchester City, með 63 stig.
„Þetta ferðalag sem við erum á og hvernig stuðningsmennirnir og leikmennirnir eru ein eining. Að bæta við þessu atviki hér í dag, var mjög sérstakt.
Þegar sigurmarkið fór í netið þá missir maður sjón á tilverunni. Ég byrjaði að hlaupa og vissi í raun og veru ekki hvert! Að horfa í andlit allra, starfsfólksins, leikmannanna og stuðningsmannanna með alla þessa gleði í augunum, er ótrúlegt að upplifa.
Þetta var óvenjulegur dagur með fallegri upplifun í lokin. Mjög dramatískt, en þess virði að upplifa því þetta var frábær endir,“ sagði Arteta í samtali við SkySports.