Sjúkraþjálfarinn Friðrik Ellert Jónsson hefur verið ráðinn til enska úrvalsdeildarfélagsins Nottingham Forest. Friðrik hefur mikla reynslu á sínu sviði og var um tíma sjúkraþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.
Þá hefur hann einnig starfað hjá Stjörnunni í Garðabæ, en Friðrik tekur sér hlé frá vinnu hjá Sjúkraþjálfun Íslands, til að ganga í raðir enska félagsins. Verður hann með félaginu út leiktíðina hið minnsta.
„Friðrik Ellert Jónsson, sjúkraþjálfari, er kominn í tímabundið leyfi frá störfum hjá Sjúkraþjálfun Íslands og hefur gengið til liðs við teymið hjá Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hann verður með þeim út þessa leiktíð. Við óskum honum góðs gengis í þessu spennandi verkefni,“ segir í yfirlýsingu frá Sjúkraþjálfun Íslands.