„Þetta eru fín þrjú stig,“ sagði Graham Potter, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir sigur liðsins á Leeds, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Stamford Bridge í gær.
Chelsea-liðið er búið að vera í algjöru brasi undir stjórn Potter og ekki unnið í síðustu sex leikjum en Chelsea er sem stendur í tíunda sæti deildarinnar með 34 stig.
„Þetta eru mikilvæg þrjú stig. Þetta er gott fyrir sjálfstraustið og móralinn í liðinu. Strákarnir hafa þjáðst undanfarið því þeim er ekki sama. Stuðningsmennirnir hafa líka þurft að þjást.
Þessi sigur er afar mikilvægur því hann gefur okkur tækifæri á að jafna okkur fyrir stórleikinn gegn Dortmund á þriðjudaginn,“ sagði Potter meðal annars eftir sigurinn en Chelsea mætir Dortmund í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge komandi þriðjudag. Þar eru þeir bláklæddu, 0:1, undir í einvíginu.