Umboðsmaður brasilíska knattspyrnumannsins Roberto Firmino segir að hann sé ekkert að velta því fyrir sér hvert hann fari eftir þetta tímabil, hans eina markmið núna sé að kveðja Liverpool eins vel og hann mögulega geti.
Roger Wittmann, umboðsmaður hans, sagði í viðtali við Football Insider að þó Firmino hafi tekið þá ákvörðun að yfirgefa félagið þegar samningur hans rennur út í sumar þá væri hann ekki upptekinn af því hvert hann myndi fara.
„Hans áætlun fyrir næstu vikurnar er að sýna stjóranum og Liverpool aftur allar sínar bestu hliðar og kveðja á þann hátt. Það ætlar hann sér að gera. Hann veit ekkert hvað það þýðir fyrir hann upp á framtíðina að gera. Allan tímann sem við ræddum framhaldið sagði hann: „Ég vil ekki tala við neitt annað félag, það er óþarfi“. Hann er í þann veginn að vera félagslaus í fyrsta skipti á ferlinum og samt segist hann ekki þurfa að ræða við aðra. Önnur félög eða fjárhagshliðn eru því ekkert að hafa áhrif á hann,“ sagði Wittmann.
Firmino hefur leikið með Liverpool í átta ár og skorað 108 mörk í 354 mótsleikjum fyrir félagið, nú síðast sjöunda markið í 7:0-sigrinum á Manchester United í gær. Tíu markanna hafa komið á þessu tímabili þó hann hafi leikið minna en áður með liðinu.
„Þetta var erfið ákvörðun fyrir hann en hans niðurstaða var að þetta væri rétti tíminn. Félagið setti enga pressu á hann og hann bað okkur aldrei um að kanna stöðu mála hjá öðrum félögum. Hann vildi ekki fara þá leið, heldur gera hlutina á sinn hátt. Þetta er óralangt frá því að vera hefðbundið ferli, trúið mér!" sagði umboðsmaðurinn.