Verður ekki refsað fyrir að ýta í aðstoðardómarann

Bruno Fernandes var pirraður í gær.
Bruno Fernandes var pirraður í gær. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnusambandið mun ekki refsa Bruno Fernandes, leikmanni Manchester United, fyrir að ýta í aðstoðardómarann Adam Nunn í tapi liðsins gegn Liverpool í gær, 7:0.

Bruno hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í gær en hann var fyrirliði United í leiknum. Hann virtist pirraður og hreinlega gefast upp þegar leið á leikinn. 

Í seinni hálfleiknum átti sér stað atvik þar sem Bruno var ósáttur og ýtti í Nunn þegar hann var á leiðinni aftur inn á völlinn eftir baráttu um boltann út við hliðarlínu. Andrew Madley, dómari leiksins, sá atvikið en lét sér fátt um finnast. Þá var ekkert minnst á þetta í skýrslu dómarans eftir leik og nú hefur verið greint frá því að enska knattspyrnusambandið muni ekki aðhafast frekar vegna málsins.

Martin Cassidy, framkvæmdastjóri stuðningsfélags dómara á Englandi, taldi að Fernandes ætti skilið fimm leikja bann en ljóst er að svo verður ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert