Við vorum betri í fyrri hálfleik

Bruno Fernandes þungur á brún eftir að Liverpool skoraði sjötta …
Bruno Fernandes þungur á brún eftir að Liverpool skoraði sjötta mark sitt gegn Manchester United á Anfield í gær. AFP/Paul Ellis

Bruno Fernandes, sem var fyrirliði Manchester United í sjö marka tapinu gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær, segir að úrslitin séu að sjálfsögðu hrikaleg fyrir liðið.

„Þetta eru að sjálfsögðu gríðarleg vonbrigði og mjög sárt, enda eru þetta virkilega vond úrslit," sagði Bruno við heimasíðu Manchester United.

„Við komum öðruvísi stemmdir til leiks en mér fannst fyrri hálfleikurinn virkilega góður. Við sköpuðum fullt af marktækifærum og stjórnuðum mestöllum hálfleiknum á meðan þeir sköpuðu ekki mikið.

Í seinni hálfleik vorum við ekki sjálfum okkur líkir og gáfum þeim alltof stór svæði. Þeir fengu alltof mikinn tíma, við töpuðum boltanum alltof oft, og við vitum vel hversu hættulegir þeir eru í skyndisóknum.

Við náðum okkur ekki á strik og vitum hve miklu betri við getum verið og hve miklir hæfileikar eru í liðinu. Nú verðum við að einbeita okkur að næsta leik og svara fyrir okkur," sagði Bruno Fernandes.

Næsti leikur Manchester United er gegn Real Betis frá Spáni í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Old Trafford á fimmtudagskvöldið en síðan kemur heimaleikur við Southampton í úrvalsdeildinni á sunnudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert