Antonio Conte, stjóri enska knattspyrnuliðsins Tottenham, hefur verið frá undanfarið vegna aðgerðar þar sem gallblaðran var fjarlægð.
Cristian Stellini, aðstoðarmaður Conte, stýrði liðinu í fjarveru Conte en Ítalinn hefur stýrt æfingum í vikunni og mun verða á hliðarlínunni í seinni leik Tottenham gegn ítalska liðinu AC Milan í Meistaradeildinni annað kvöld.
Upphaflega átti það einungis að taka viku fyrir Conte að jafna sig á aðgerðinni og var því ekki gert ráð fyrir að hann yrði frá svona lengi. Læknar hans á Ítalíu, þar sem aðgerðin var framkvæmd, ráðlögðu honum að vera lengur svo líkami hans gæti jafnað sig að fullu.
„Ég vanmat klárlega þessa aðgerð. Það var einhver ábyrgðartilfinning í mér sem lét mig vilja fara of snemma af stað, kannski hafði ég of mikla trú á sjálfum mér.
Ég er búinn að jafna mig núna, fyrir utan það að ég léttist sem ég þarf að vinna til baka. Ég mun reyna að koma orkunni minni til leikmannanna eftir bestu getu því við þurfum á því að halda.“
Fyrri leikur Tottenham og Milan lauk með sigri Milan, 1:0, í Mílanó-borg. Tottenham þarf því að vinna upp þann mun á sínum heimavelli annað kvöld ætli liðið sér áfram í 8-liða úrslit.
„Við viljum spila þessa leiki. Þegar pressan eykst er stærð leikjanna að aukast líka. Það má ekki gleyma því að á síðasta tímabili vorum við í Sambandsdeildinni, núna erum við í Meistaradeildinni.