Króatinn Slaven Bilic hefur verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá enska knattspyrnuliðinu Watford.
Watford hefur einungis unnið einn leik af síðustu átta í ensku B-deildinni og situr í níunda sæti, fjórum stigum frá umspilssæti. Þá hefur liðið einungis unnið þrjá leiki síðan um jólin.
Chris Wilder, fyrrverandi stjóri Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni, mun taka við liðinu út tímabilið hið minnsta en þjálfaraveltan hjá Watford síðustu ár hefur verið hreint út sagt ótrúleg. Wilder verður hvorki meira né minna en 19. stjóri liðsins frá árinu 2014.
Bilic þjálfaði West Ham og WBA í ensku úrvalsdeildinni en auk þess hefur hann þjálfað ýmis lið um allan heim.