James Milner, leikmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool, fékk í dag MBE-orðuna sína afhenta frá bresku krúnunni við hátíðlega athöfn í Windsor-kastala.
Milner var reyndar valinn ásamt fjölda annarra til að taka við orðunni í júní 2022 en fékk hana formlega afhenta í dag.
Orðuna fær hann fyrir störf sín jafnt innan sem utan vallar en ferill þessa 37 ára gamla magnaða leikmanns spannar rúmlega 20 ár. Hann er fjórði leikjahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi, með einungis 45 leikjum minna en Gareth Barry, svo það eru góðar líkur á að hann komist upp fyrir hann áður en ferillinn klárast.
Utan vallar stofnaði hann James Milner-samtökin sem hafa það að markmiði að stuðla að heilbrigðri afþreyingu og áhugamálum ungmenna í Bretlandi sem lágmarka líkurnar á að þau leiðist á ranga braut.
Á ferli sínum hefur hann einnig spilað með Leeds, Newcastle, Aston Villa og Manchester City svo dæmi sé tekið og þá á hann einnig 61 landsleik fyrir England.
Fjölmargir knattspyrnumenn hafa hlotið MBE-orðuna en þar má sem dæmi nefna liðsfélaga hans hjá Liverpool þá Jordan Henderson og Andrew Robertson, Marcus Rashford, leikmann Manchester United, Harry Kane, leikmann Tottenham, og Raheem Sterling, leikmann Chelsea.